Fasteignasvið

Íslensk fjárfesting er alhliða fjárfestir á fasteignamarkaði og tekur þátt í verkefnum á öllum stigum framkvæmdaferilsins. Þannig má skipta fasteignasviði félagsins í annars vegar fjárfestingar og fasteignaumsýslu og hins vegar fasteignaþróun.

Fjárfestingar félagsins á árinu 2017 sneru að miklu leyti að uppbyggingu og vexti á eignasafni félagsins í miðbæ Reykjavíkur sem leigt er til RR hótela ehf. Í upphafi ársins 2017 tók nýstofnað félag, RR fasteignir ehf., við öllum fasteignum og framkvæmdaverkefnum við skiptingu RR hótela í rekstrarfélag og fasteignafélag.

Framkvæmdum lauk við Lindargötu 11 og Veghúsastíg 9a þar sem félagið afhenti RR hótelum 20 nýjar hótelíbúðir. Einnig hófust framkvæmdir við Hverfisgötu 78 en félagið er að byggja nýtt hús á baklóð ásamt því að núverandi hús sem snýr að götu verður endurbætt og breytt. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki á þriðja ársfjórðungi 2018 og þá verða 16 nýjar hótelíbúðir afhentar RR hótelum. Íslensk fjárfesting gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti hjá RR hótelum, sem muni styðja við rekstur félagsins með áframhaldandi fjölgun íbúða í eignasafninu á næstu árum.

Einnig er félagið að þróa, hanna og byggja vel á þriðja hundrað íbúða á fjórum reitum á vestanverðu Kársnesi. Verkefnin eru mislangt komin en stefnt er að því að hefja sölu fyrstu íbúða á seinni helmingi ársins 2018. Um er að ræða fjölbreyttar íbúðir en stór hluti þeirra hefur verið hannaður með hagkvæmni í huga, þ.e. íbúðir ætlaðar litlum og meðalstórum fjölskyldum þar sem herbergjafjöldi og kaupverð ræður för.

Þessi verkefni eru unnin af Íslenskum fasteignum ehf. en félagið, sem er að meirihluta í eigu Íslenskrar fjárfestingar, sérhæfir sig í byggingastjórnun, fasteignaþróun, stýriverktöku, stjórnun verkefna og hönnunar ásamt almennri ráðgjöf og umsýslu.

Helstu verkefni fasteignasviðs

Þau verkefni sem fasteignasvið Íslenskrar fjárfestingar einblínir sérstaklega á þessi misserin eru nánar tiltekið eftirfarandi:

RR FASTEIGNIR ehf. og RR FASTEIGNIR II ehf.: Félögin halda utan um þær fasteignir sem eru í rekstri hjá RR hótelum auk nýfjárfestinga.

KÁRSNESBYGGÐ I og II ehf.: Félögin halda utan um byggingu og endurgerð á 109 íbúðum ásamt atvinnuhúsnæði við Hafnarbraut 9–15 á Kársnesi. Áætlað er að hluti af íbúðunum fari í sölu seinni part ársins 2018.

HAFNARBYGGÐ ehf.: Félagið heldur utan um framkvæmdir við Hafnarbraut 4–8 á Kársnesi í Kópavogi þar sem áætlað er að rísi 38 íbúðir á næstu tveimur árum. Verkefnið er í miðju hönnunarferli og áætlað er að framkvæmdir hefjist haustið 2018.

VINABYGGÐ ehf.: Er eigandi lóða við Bakkabraut 2 og Bryggjuvör 1–3 á Kársnesi í Kópavogi og fyrirhugar að byggja þar 160 íbúðir á næstu þremur til fjórum árum. Verkefnið er í deiliskipulagsferli.

.