KILROY International

Stærsta fjárfesting Íslenskrar fjárfestingar á ferðaþjónustusviði er félagið KILROY International A/S.

KILROY er evrópskt ferðaþjónustufyrirtæki sem er leiðandi á þeim sviðum sem það starfar á. Félagið starfar nú í átta löndum, með skrifstofur á 24 stöðum í Evrópu og starfar undir fimm vörumerkjum.

KILROY INTERNATIONAL er móðurfyrirtæki nokkurra evrópskra ferðaþjónustufélaga sem eru hvert og eitt leiðandi í þeirri tegund ferðaþjónustu sem félögin hafa skilgreint sem sinn markað. KILROY rekur vörumerki á átta mörkuðum í Evrópu og er með rúmlega 400 starfsmenn.

KILROY hefur vaxið umtalsvert á undanförnum árum og hefur tekið yfir fjölmörg minni ferðaþjónustufyrirtæki. Búist er við áframhaldandi vexti á næstu árum á núverandi mörkuðum fyrirtækisins og nýjum mörkuðum.

Í gegnum fjölmargar skrifstofur KILROY er hægt að skipuleggja allskonar ævintýri í flestum löndum heimsins.

Vörumerkin og starfsemi þeirra

KILROY leggur mikið upp úr því að byggja upp vörumerki sín og efla það traust sem viðskiptavinirnir hafa á þeim. Mikil áhersla er lögð á menntun starfsfólks og að það búi sjálft að umtalsverðri ferðareynslu sem það getur miðlað til viðskiptavina. Undanfarin ár hefur verið fjárfest markvisst í beinni sölu á Netinu og mun áfram verða leitað leiða til að þjóna viðskiptavininum sem best í gegnum Netið.

Helstu vörumerkin eru KILROY, Benns, Jysk Rejsebureau, Winberg Travel, ISIC og Frank. Félagið leggur mesta áherslu á einstaklingsmiðaðar ferðir og vega þar þyngst svokallaðar „backpackers“ ferðir en félagið hefur lengi verið í forystu á því sviði á Norðurlöndunum. Stærsti viðskiptavinahópur fyrirtækisins er ungt fólk og stúdentar en KILROY hefur meira en 60 ára reynslu í að þjóna þeim markhópi.

Starfsemi KILROY skiptist í raun í nokkra markaði. Auk einstaklingsferðanna sem að ofan er getið hefur KILROY sérhæft sig í ráðgjöf um menntun erlendis og hópferðum skólahópa. BENNS er stærsti söluaðili námsferða í Danmörku ásamt því að selja dýrari ferðir á borð við siglingar, safarí, heilsuferðir og fleira. Jysk Rejsebureau hefur líkt og KILROY sérhæft sig í einstaklingsmiðuðum ferðum en skírskotar til breiðara aldursbils.

JYSK REJSEBUREAU: Jysk Rejsebureau hefur hannað ferðir fyrir hinn ævintýraþyrsta ferðalang í meira en 25 ár. Söluráðgjafar Jysk Rejsebureau eru sjálfir með mikla reynslu sem ferðalangar og þeir einbeita sér að því að veita viðskiptavinum tækifæri til að upplifa svæði sem iðulega finnast þar sem malbikið endar og vegirnir breytast í slóða. Leitast er við að setja saman ferðir með miklu af „að upplifa heiminn“ innihaldi – ferðir sem eru einstök reynsla en um leið á viðráðanlegu verði. Í byrjun árs 2018 keypti Jysk Rejsebureau sænsku ferðaskrifstofuna Winberg Travel sem lið í því að færa út kvíarnar til annarra norrænna markaða.

BENNS: BENNS er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í margskonar áfangastöðum og ferðum, svo sem safariferðum, skemmtisiglingum, kynnisferðum með leiðsögn og víðtæku neti áfangastaða og ferða í Bandaríkjunum/Kanada og Ástralíu/Nýja Sjálandi. Aðalmarkhópur Benns er fólk sem orðið er eldra en 55 ára. Vörumerkið BENNS var kynnt í upphafi árs 2015 og kemur í stað heitisins Team Benns. Síðar á árinu 2015 yfirtók BENNS vörumerkið tur.no í Noregi.

ISIC: KILROY er með rétt til að gefa út ISIC-kortið (International Student Identity Card, alþjóðlega námsmannakortið) á sex markaðssvæðum. ISIC eru einu persónuskilríkin sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og eru tekin gild sem staðfesting á stöðu handhafans sem námsmanns í fullu námi. ISIC nýtur stuðnings UNESCO, korthafar eru um 4 milljónir og það veitir aðgang að meira en 40.000 afsláttartilboðum um allan heim.

OURWORLD:  Fyrirtækið sérhæfir sig í hópferðum með leiðsögn um allan heim og beinir athyglinni að því að þjóna fyrirtækjum og félagasamtökum.

FRANK: Frank Students var stofnað árið 2013 af fernum landssamtökum nemendafélaga í Finnlandi. Það einbeitir sér að því að útvega afslætti og góða kosti fyrir finnska námsmenn. Frank Students gefur einnig út finnska námsmannakortið sem meðal annars má nota sem greiðslukort. Í byrjun árs 2018 jók KILROY við hlut sinn í Frank úr 49% upp í 70%.

KILROY heldur einnig uppi sjálfseignarstofnuninni KILROY Foundation. Lesa meira...

Hér má nálgast alþjóðlegt vefsvæði KILROY.