RR hótel

Á Íslandi hefur RR hótel verið byggt upp hægt og rólega. Hótelið er í gömlum og sögufrægum húsum í miðborg Reykjavíkur, byggðum snemma á síðustu öld, sem hafa verið endurnýjuð í góðri sátt við söguna, sem þar er miðlað í máli og myndum á veggjum. Hótelið hefur verið í hæsta gæðaflokki og fengið fjölda verðlauna fyrir gæði og þjónustu. Félagið rekur nú starfsemi undir fjórum vörumerkjum í sex húsum. Mikil uppbygging átti sér áfram stað á árinu 2017 og mun áfram eiga sér stað á árinu 2018 í kringum þær fasteignir sem félagið rekur starfsemi sína í.

Hér má nálgast vefsvæði RR Hotel.

Dótturfélag RR Hótela er Sútarinn.

 
 

Hverfisgata 21

Eitt af elstu steinsteyptu húsunum í Reykjavík, byggt árið 1912 fyrir Jón Magnússon, þá bæjarfógeta í Reykjavík og seinna fyrsta forsætisráðherra Íslands, og eiginkonu hans, Þóru Jónsdóttur. Arkitekt hússins var Finnur Ó. Thorlacius og byggingarmeistari Steingrímur Guðmundsson. Seinna voru höfuðstöðvar félaga bókagerðarmanna í húsinu um sjö áratuga skeið. Þar voru skrifstofur bæjarfógeta fyrstu árin og seinna skrifstofa Áfengisverslunar ríkisins. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hóf þar starfsemi sína og sömuleiðis var þar til húsa Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Skáld og listamenn voru um tíma heimagangar í húsinu – og þar gistu konungur og drottning Danmerkur og Íslands í opinberri heimsókn sinni 1926.

 
IMG_3888web.jpg

Hverfisgata 45

Steinhús byggt árið 1914, eitt elsta dæmið um íslenska steinsteypuklassík í Reykjavík. Hér var áður tómthúsbýlið Hlíð eða Arnljótskot. Fyrstu eigendur hússins voru hjónin Matthías Einarsson læknir og Ellen Ludvíka Matthíasdóttir Johannessen. Seinna var í húsinu skrifstofa aðalræðismanns og síðar Sendiráð Noregs fram á áttunda áratug tuttugustu aldar. Söngskólinn í Reykjavík var þar síðan í nærri aldarfjórðung.

 
_MG_4268web.jpg

Veghúsastígur 9

Steinsteypt og að hluta til steinhlaðið hús byggt árið 1920, hannað af Erlendi Einarssyni arkitekt. Þar og í viðbyggingum sem seinna voru rifnar voru til húsa sápugerðin Máni, smjörlíkisgerðin Smári, bókaútgáfan Helgafell, prentsmiðjan Víkingsprent, bókaverslunin Unuhús og sýningarsalir fyrir myndlist. Leikskólinn Lindarborg nýtti auk þess hluta húsanna á tímabili. Þá var Félag áhugamanna um stjörnulíffræði til húsa í risinu um tæplega tveggja áratuga skeið.

 
 

Nýting með því besta sem finnst

RR hótel var rekið með um 97% nýtingu á árinu 2017, sem er með því besta sem gerist á íslenska hótelmarkaðnum.

 
 

Gamalt gert að nýju

Reykjavík Residence hótel, sem er í eigu Íslenskrar fjárfestingar ehf., var allt endurgert árið 2011 sem íbúðahótel fyrir vandláta viðskiptavini. Hótelið er til húsa við Hverfisgötu og Veghúsastíg og er því mjög miðsvæðis og nálægt helstu verslunargötum Reykjavíkur. Hótelið samanstendur af sex byggingum að Hverfisgötu 45, Hverfisgötu 21, Veghúsastíg 7, Veghúsastíg 9, Veghúsastíg 9a og Lindargötu 11. Í húsunum sex er nú rekið íbúðahótel í háum gæðaflokki. Alls rekur RR hótel því 47 íbúðir í sex húsum.

RR hótel hélt áfram framkvæmdum á árinu 2017 við Hverfisgötu 78 sem keypt var á árinu 2015. Áætlað er að framkvæmdum ljúki haustið 2018. Verið er að byggja á baklóð og þannig verða samtals á reitnum 16 íbúðir. Þegar framkvæmdum verður lokið mun RR hótel samtals reka 63 íbúðir í átta húsum.

RR hótel rekur vínbarinn Port 9 við Veghúsastíg 7. Þar er einnig morgunverður á vegum Reykjavík Residence. Port 9 var opnað í nóvember 2016 og hefur verið vel tekið af ferðamönnum og íslenskum sælkerum. Nafnið Port 9 er dregið af portinu sem er á milli húsanna Veghúsastígs 7, 9 og 9A.

Um áramótin 2016–2017 skiptist RR hótel upp í tvö félög. Annars vegar RR hótel ehf. sem áfram heldur utan um rekstur allra hóteleininga og hins vegar RR fasteignir ehf. sem er eigandi allra fasteigna sem leigðar eru til RR hótela. RR fasteignir eru nú í söluferli.

 
 
RR_weblayout_v2-1.jpg